Vorferðin 28.-29. apríl

Ágætu ferðafélagar mínir, gleðilegt sumar.

Nú er aðeins rúm vika í ferðina okkar góðu til Stykkishólms og um Borgarfjörðinn og allt er klappað og klárt. Veðurspáin er mjög góð, milt veður um 3 gráður, engin úrkoma og sól um kvöldið. 28. apríl leggjum við af stað frá Þorlákssetri kl. 8.30. Við erum 37 í hópnum auk bílstjóra, sem sagt afskaplega þægileg stærð á hóp sem gerir allt miklu léttara, tekur styttri tíma að fara inn og út úr rútunni, fá afgreiðslu o.s.frv. Við ökum sem leið liggur í Borgarnes og þar verður stutt stopp við N1 sjoppuna en síðan haldið áfram beint í Stykkishólm. Þar eigum við pantaðan hádegismat í Narfeyrarstofu, dýrindis fiskrétt og kaffi á eftir. Síðan skoðum við bæinn og nágrennið, stoppum stutt við Helgafell en höldum síðan aftur í Borgarnes og bókum okkur inn á fína hótelið okkar um kl. 17.00. Þá getum við fengið okkur göngutúr, farið í baðhúsið (spa) í kjallara hótelsins eða bara hvílt okkur smá á herbergjum. Kvöldmaturinn verður kl. 19. Hægeldað lambafille með grilluðu rótargrænmeti, ristuðu smælki og sveppasósu.  Eftirrétturinn er súkkulaðikaka með þeyttum rjóma. Næsta morgun er stór morgunverður. 29. apríl leggjum við af stað kl. 10 og byrjum á hringferð um Borgarnes og nágrenni, Borg á Mýrum m.m. Hádegisverðurinn verður í hóteli að Varmalandi, kjúklingaréttur með meðlæti og kaffi á eftir. Þá er ekið stóran hring að Deildartunguhver, Reykholti, Kleppjárnsreykjum, Hvanneyri m.m. áður en haldið er heim til Hveragerðis, áætluð heimkoma kl. 18. Það verða ávextir og vatn á boðstólum í rútunni svo enginn ætti að verða svangur. Og á leiðinni segi ég ykkur alls konar sögur, gamlar og nýjar, lognar og sannar, skemmtilegar eða kannski leiðinlegar.

Ég hlakka til að kynnast ykkur betur

Bestu kveðjur

Sigurlín, fararstjóri s. 898 2488.

0 replies

Skildu eftir svar

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *