Fyrstu árin bjó félagið við sífellt húsnæðisleysi. Sagan segir að helsta eign þess hafi verið koffort sem Brynhildur Jónsdóttir (Binna) gaf og var borið á milli hinna ýmsu staða þar sem húsaskjól fékkst til að halda fundi.
Eftir að arfleifð Þorláks Kolbeinssonar, jörðinni Eystri-Þurá í Ölfusi með áhöfn og öllum öðrum eigum hans, hafði verið komið í verð, var fjárhagur félagsins orðinn það rúmur að grundvöllur hafði myndast fyrir kaupum á húsnæði fyrir félagsheimili. Að undangenginni vandlegri skoðun á fyrirliggjandi kostum var ákveðið að festa kaup á hluta efri hæðar í nýbyggingu að Breiðumörk 25b.
Kaupsamningur var samþykktur á félagsfundi 17. ágúst árið 2000, með 53 atkvæðum gegn 5. Afsal var gefið út 1. október 2002, en eignin hafði verið afhent kaupanda 6. nóvember 2001. Flatarmál eignarhluta FEBH var reiknað 189 fermetrar í séreign og 44,35 ferm. í sameign, eða 224,35 fermetrar alls. Á almennum félagsfundi 13. janúar 2002 var samþykkt með 27 atkvæðum að gefa félagsheimilinu nafnið Þorlákssetur.
Önnur heiti sem til greina komu: Þorláksstofa 25 atkvæði, Vinaminni 16, Þorláksbúð 8 og Uppsalir 1 atkvæði.
Kaupverð var tæpar 22,5 milljónir, og var fjármagnað þannig að 12,5 milljónir fengust fyrir sölu Eystri-Þurár, 8 milljónir voru styrkur frá Hveragerðisbæ og 2 milljónir komu úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Árið 2004 var til sölu í húsinu skrifstofurými næst Þorlákssetri, um 34 fermetrar. Eftir umræður og tilboð fram og aftur var samþykkt á aðalfundi félagsins 24. febrúar 2005 að kaupa þessa viðbót á 3 milljónir króna.Framkvæmdasjóður aldraðra greiddi 1,32 m. kr. upp í þessi kaup. Að öðru leyti voru þau fjármögnuð af eigin fé.
Þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika, smíða- og hönnunargalla og jafnvel ólokin frágangsverk, hefur Þorlákssetur reynst félagsstarfinu mikil lyftistöng. Má segja að húsið sé í fullri notkun alla virka daga nema yfir sumarið en þá er lítið um að vera annað en sýningarnar á Blómstrandi dögum. Salirnir rúma um 70 manns í sæti með góðu móti. Nægir það fyrir allar samkomur nema þær allra stærstu.
Þorlákssetur var vígt með viðhöfn laugardaginn 1. desember 2001. Séra Jón Ragnarsson sóknarprestur vígði húsið. Formaður, Auður Guðbrandsdóttir, minntist Þorláks Kolbeinssonar og hans höfðinglegu gjafar. Ávörp fluttu Aldís Hafsteinsdóttir, Hálfdán Kristjánsson, Bryndís Sigurðardóttir, Árni Gunnarsson og séra Tómas Guðmundsson. Gyða Halldórsdóttir lék undir almennum söng. Margar kærkomnar gjafir bárust félaginu af þessu tilefni, gagnlegir jafnt sem fallegir munir, neysluvarningur, peningar, blóm og fleira.