Vorferð á Snæfellsnes og Borgarfjörð 28.-29. apríl 2023
Við mættum í kafaldssnjómuggu og kulda við Þorlákssetur rúmlega átta að morgni. Eflaust hafa margir hugsað um hlýja rúmið sitt heima. Bílstjórinn, hann Ómar, hafði þurft að hafa töluvert fyrir að hreinsa snjó af rútunni því það var víst enn meiri snjór á Selfossi. En við gáfumst ekkert upp og lögðum af stað stundvíslega kl. 8.30. Þegar komið var upp á háheiðina var fljúgandi hálka og við keyrðum fram á bíl sem hafði rokið út af og lá með hjólin upp í loftið. Þótt það sé að sjálfsögðu alvarlegt gat ég ekki stillt mig um að segja sögu sem ég fékk frá Gísla Einarssyni viku áður um bónda á Mýrunum sem velti jeppanum sínum svona. En bóndinn hoppaði út, fann smurkönnuna og fór að smyrja hjólabúnaðinn, „nú þegar jeppinn lá svo vel við.“ Þar með fór hrollurinn úr okkur og allir hlógu. Framundan var blár himinn og glampandi sól. Austurhelmingur Esjunnar var hvítur, en hinn alauður og það var endalaus sól og fegurð alla ferðina.
Þetta var frábær hópur, alveg mátulega stór þótt við hefðum auðvitað viljað hafa þá með sem forfölluðust. Allar tímaáætlanir stóðust og allt gekk að óskum. Þegar ég var að vinna hjá Norræna félaginu fór framkvæmdastjórinn ( var líka ónafngreindur alþingismaður) oft á fundi erlendis en við starfsfólkið sátum heima. Þá spurðum við alltaf hvernig gekk fundurinn? Við fengum alltaf þessi svör: „frábær matur en lélegt hótel, eða frábært hótel en lélegur matur.“ Við getum núna sagt; „frábær matur í Narveyrarstofu í Stykkishólmi og á Hótel Varmalandi, góð gisting á hótel B59 í Borgarnesi, en maturinn frá Fjárhúsinu var ekki nógu góður“.
Seint á föstudagskvöldinu, að loknum kvöldverði (og smá vínsopa), spurði ég hópinn minn hvort þau væru til í að fara Hvalfjörðinn með mér á leiðinni heim af því að mér þykir svo vænt um það svæði. Allir voru meira en til í það. Það var yndisleg ákvörðun, því þótt það væri blástur víða í Borgarfirðinum var blanka logn í Hvalfirði, sléttur sjórinn, æðarfuglinn kominn og óendanlega fallegt í sólinni. Við komum heim stundvíslega kl. 18 samkvæmt áætlun, með sól í hjarta.
Með þakklæti og kveðju
Fararstjórinn, Sigurlín
___________________________________
Afmælishátíð að Hótel Örk 25. mars 2023
Myndirnar tók Daði V. Ingimundarson
Jólagleði Félags eldri borgara í Hveragerði fimmtudaginn 1. des. 2022 á Hótel Rangá
Myndirnar tók Gyða Björg Elíasdóttir