Lífshlaupið

Frá: Bjartur lífsstíll

Skráning í Lífshlaupið hefst 18. janúar!

Ágæti viðtakandi.

Lífshlaupið 2023 hefst 1. febrúar, ætlar þú ekki að vera með í ár?
Skráning

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar þurfi að hreyfa sig minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir þurfi að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga að eigin heilsu með því að stunda reglubundna hreyfingu. Flestir vita hver ávinningur þess að hreyfa sig reglulega getur verið en hér er smá áminning.
Reglubundin hreyfing stuðlar að bættum svefni, bættum lífsgæðum, dregur úr líkum á ýmsum sjúkdómum og styrkir hjarta- og æðakerfið

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka

Með Lífshlaups-appinu er einfalt að skrá sína hreyfingu á meðan á Lífshlaupinu stendur. Í smáforritinu er hægt að skrá og sjá alla hreyfingu viku aftur í tímann. Þar er einnig hægt að lesa hreyfingu beint úr Strava. Það er þó rétt að benda á að það þarf að fara á vefsíðu Lífshlaupsins til þess að stofna aðgang og til þess að stofna lið/ganga í lið, en eftir að það er búið er hægt að skrá sig inn í gegnum smáforritið og skrá alla hreyfingu þar. Smáforritið finnst bæði í App Store (iOS) og í Play Store (Android) undir heitinu „Lífshlaupið“. Einnig er hægt að nálgast það með því að smella hér ef þú ert í Iphone en hér ef þú ert að nota Android.

Skráningarferlið er einfalt og þægilegt og fínar leiðbeiningar má finna r.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið gefa Hrönn Guðmundsdóttir og Linda Laufdal, starfsmenn Fræðslu- og almenningssviðs ÍSÍ á netfanginu lifshlaupid@isi.is eða í síma 514-4000

Á meðan Lífshlaupið stendur yfir eru heppnir þátttakendur dregnir út alla virka daga í Morgunverkunum á RÁS 2, þeir heppnu fá ávaxtabakka frá Ávaxtabílnum.
Átta þátttakendur eru svo dregnir út í myndaleik Lífshlaupsins sem fá veglega vinninga frá eftirfarandi samstarfsaðilum:
Ávaxtabíllnum,  MjólkursamsölunniSkautahöllinni,  Klifurhúsinu,  World Class,  Primal og Lemon

Taktu þátt, vertu fyrirmynd og hvettu fólkið í kringum þig til þess að taka þátt í Lífshlaupinu 2023

Með Lífshlaupskveðju

Fréttabréf vorönn 2023

Fréttabréf Félags eldri borgara í Hveragerði í janúar 2023

Kæru félagar. Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir hið liðna. Við hvetjum ykkur til að taka þátt í hollri hreyfingu og margs konar góðri iðju í félaginu okkar. Meðfylgjandi er stundatafla vormisseris sem í þetta sinn skiptist í tvö 10 vikna tímabil. Mánudaginn 23. janúar hefjast fyrstu námskeiðin og stendur það tímabil fram að páskum. Eftir páska hefst nýtt tímabil, einnig 10 vikur, sem stendur fram í fyrstu viku júni. Hægt er að velja bæði tímabilin, þ.e. 20 vikur, eða kannski aðeins fyrir páska eða eftir páska, 10 vikur hvort tímabil.

Nú verða í boði tvö ný námskeið í Þorlákssetri: Námskeiðið „Að lesa ljóð og yrkja ljóð“ er byggt upp á einföldum skrifæfingum sem ganga út á að láta þátttakendur líkja eftir góðri fyrirmynd og vinna síðan áfram með eigin texta. Þátttakendur fá að lesa upp það sem þeir skrifa eða fá aðra til þess. Einnig verður stefnt að upplestri eða ljóðasýningu í lokin. Þátttakendur eiga að hafa með sér penna/blýant og blöð til að skrifa á eða tölvu. Kennari er Anton Helgi Jónsson. Einnig námskeiðið; “Að hekla körfu” stutt námskeið þar sem þátttakendur læra að hekla stóra körfu í tveim litum að eigin vali, með heklunál nr. 5,5. Farið er yfir heklutáknin og uppskriftarlæsi og er allt garn innifalið í verðinu. Karfan er síðan tilvalin undir garn og annað handavinnudót eða bara hvað sem er. Kennari er Kristjana Björk.

Í haust buðum við upp á vatnsleikfimi í sundlaug Heilsustofnunar og var kennarinn Rakel. Þá komust ekki allir að, við gátum haft tvo hópa (40 manns) en hefðum viljað hafa einn hóp í viðbót. Nú höfum við fengið vilyrði fyrir þriðja hópnum ef þátttaka verður það mikil. Áfram verður boðið upp á Yoga og Yoga nidra í Kapellu Heilsustofnunar og Dansleikfimi í Skyrgerðinni. Síðast en ekki síst ber að geta um allt það frábæra starf sem fer fram í Þorlákssetri, sem allir geta tekið þátt í. Ljósmyndahópurinn sem starfaði líka í fyrra er það stór að ekki er hægt að bæta við þar en þá er alveg upplagt að mynda nýjan hóp, finna nýjan tíma og þeir reyndari hafa lofað að leiðbeina. Kórinn okkar Hverafuglar er á fljúgandi ferð og er meira að segja að fara í vorferð til Gdansk.

Við skráningu á námskeið þarf að skrá fullt nafn, kennitölu, hvaða námskeið, hvaða tímabil, fyrir eða eftir páska eða allar 20 vikurnar. Best og tryggast er að skrá sig með tölvupósti á netfangið torlaksetur@gmail.com. Einnig er hægt að skrá sig í síma 4835216 kl. 13-16; föstud. 13. 1., mánud. 16.1., þriðjud. 17.1. og miðvikud. 18.1.

Nú hefur verið ákveðið að niðurgreiðsla félagsins verði 25% og er búið að reikna þann afslátt inn í verðskána hér að neðan. Eins og áður koma þátttökugjöld fyrir námskeið í heimabankann skömmu eftir skráningu og er gott að ganga frá greiðslum sem fyrst eftir það.

Verðskrá fyrir námskeið á vorönn 2023
– Vatnsleikfimi – fyrir páska kr. 7.100
– Vatnsleikfimi – eftir páska kr. 5.400 (7 skipti vegna 3 frídaga á tímabilinu)
– Yoga kr. 7.700
– Yoga Nidra slökun kr. 7.700
– Dansleikfimi kr. 4.500
– Vatnslitanámskeið kr. 8.600
– Körfuhekl kr. 4.200
– Ritlist ljóða kr. 5.200

Við kynnum síðar margs konar viðburði s.s. leikhúsferðir, ferðalög, fræðsluerindi, skemmtanir og fleira sem er í undirbúningi. Þar eru hugmyndir ykkar afar vel þegnar. Ekki hika við að hringja eða senda tölvupóst ef spurningar eða hugmyndir vakna.

Fyrir hönd stjórnar
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, starfandi formaður
Sími; 898 2488, netfang; sigurlinsv@simnet.is

Frá uppstillingarnefnd

Frá Uppstillingarnefnd FEBH
Uppstillingarnefnd FEBH hefur verið falið að leita eftir fólki til stjórnarstarfa næsta kjörtímabil sem er tvö ár.
Aðalfundur félagsins verður 23.02.23 og verða tillögur nefndarinnar að liggja frammi a.m.k tveimur vikum áður.
Starf félagsins hefur verið blómlegt í vetur og margt fólk tekið þátt í margs konar starfsemi á vegum félagsins, auk ýmiskonar skemmtunar. Félagið vex og dafnar og telur nú um 400 félaga. Það er ómetanlegt að eiga gott félag fyrir okkur eldri borgara og slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Í stjórn þarf að sitja áhugasamt fólk sem er tilbúið að leggja fram krafta sína. Við óskum eftir fólki með áhuga og reynslu af félagsstörfum.
Við hvetjum þá sem áhuga hafa á að starfa í stjórn að hafa samband við eitthvert okkar í nefndinni.
Með bestu kveðjum

Hólmfríður Árnadóttir s: 6946869 holmarn@ismennt.is
Margrét Magnúsdóttir s: 863 7467 reykjarkot@internet.is
Eyvindur Bjarnason s: 893 0324 kjarrheidi10@gmail.com

Jólakveðja til félagsmanna 2022

Kæru vinir í Félagi eldri borgara í Hveragerði. Nú förum við að huga að því að taka hlé frá félagsstörfum fram yfir áramót og njótum tímans með ættingjum og vinum yfir hátíðarnar.

Það er gaman að rifja upp hvernig jólin voru í uppvexti okkar flestra þegar rafmagn var ekki komið á öll byggð ból og alls ekki jólaskreytingar eins og þær sem við sjáum nú prýða bæinn okkar. Ég var víst orðin 8 ára þegar rafmagnið kom nokkuð stöðugt í sveitina mína. Við vorum með þeim fyrstu til að hengja upp litaðar ljósaperur í eitt tréð í garðinum og vakti það mikla forvitni hjá nágrönnum. Kannski eigið þið svipaðar minningar frá bernskunni?

En hvað verður á döfinni á nýju ári í FEB Hveragerði. Hér nefni ég helstu atriði: Það verður sent út fréttabréf og ný stundatafla um 10. janúar 2023; í tölvupósti, á heimasíðu, í sms og með pósti. Skráning í námskeiðin verður 11., 12. og 13. janúar, bæði í síma og með tölvupósti. Starfsemi í Þorlákssetri sem ekki kostar getur byrjað eftir áramót þegar hópstjórar og félagar óska.

Aðalfundur verður haldinn 23.02.23. Þar verður kosið í nokkur embætti og verður það kynnt með lögboðnum fyrirvara. Áslaug Guðmundsdóttir, kosinn formaður, hefur tilkynnt á stjórnarfundi 9.12. sl. að hún vilji ekki vera áfram.

Við í stjórninni sendum ykkur hlýjar jóla- og nýárskveðjur með kæru þakklæti fyrir það liðna. Við hlökkum til að hitta ykkur eftir áramót.

Sigurlín, starfandi formaður.

Jólahlaðborð

Jólagleði Félags eldri borgara í Hveragerði fimmtudaginn 1. des. nk. á
Hótel Rangá

Þá er komið að kynningu á Jólagleði FEB Hveragerði 1. 12. 2022. Við förum í rútu og leggjum af stað
frá Þorlákssetri kl. 13.30. Ekið verður sem leið liggur austur að Hótel Rangá. Það verður fallegur
upplestur í hátalakerfinu á leiðinni: Hlíf S. Arndal mun lesa upp úr skáldverki Gunnars Gunnarssonar,
Aðventu.
Á Hótel Rangá fáum við 7 rétta jólamatseðil sem borinn verður á borðin. Fyrst rjómalöguð
villisveppasúpa, þá forréttartvenna: villibráðarpaté og grafinn lax á salatbeði, síðan aðalréttatvenna:
purusteik og lambafillet með sykurgljáðu smælki og soðsósu. Eftirréttur er súkkulaðiostakaka og
sörur.
Einnig er boðið upp á sérstakt tilboð á drykkjum með matnum: Santa Sofia Pinot grigio hvítvínsglas á
kr. 1500, Finca Las Moras Tempranilla rauðvínsglas á kr. 1500 og kranabjór á kr. 1000.
Á meðan á borðhaldinu stendur birtist tónlistarfólk úr héraði og syngur nokkur lög fyrir okkur.
Ef til vill verða einhverjir sem vilja halda uppi góðri stemningu með söng í rútunni á leiðinni heim.
Hámarksfjöldi er 70 manns. Verðið er niðurgreitt eins og áður og kostar kr. 7000 á mann fyrir rútu og
mat. Innheimt verður gegnum heimabanka.
Umsjón og skráning er í höndum Sigurlínar á netfangi sigurlinsv@simnet.is eða síma 898 2488.
Betra er að senda tölvupóst til að forðast bið eftir símtali, allir fá svar samdægurs. Skráningartíminn
er kl. 15.00 til 18.00; þriðjudag 22.11., miðvikudag 23.11., og fimmtudag 24.11.2022.
Munið, það þarf að skrá nafn og kennitölu!

Fh. stjórnar
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, starfandi formaður