Fréttabréf vorönn 2023

Fréttabréf Félags eldri borgara í Hveragerði í janúar 2023

Kæru félagar. Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir hið liðna. Við hvetjum ykkur til að taka þátt í hollri hreyfingu og margs konar góðri iðju í félaginu okkar. Meðfylgjandi er stundatafla vormisseris sem í þetta sinn skiptist í tvö 10 vikna tímabil. Mánudaginn 23. janúar hefjast fyrstu námskeiðin og stendur það tímabil fram að páskum. Eftir páska hefst nýtt tímabil, einnig 10 vikur, sem stendur fram í fyrstu viku júni. Hægt er að velja bæði tímabilin, þ.e. 20 vikur, eða kannski aðeins fyrir páska eða eftir páska, 10 vikur hvort tímabil.

Nú verða í boði tvö ný námskeið í Þorlákssetri: Námskeiðið „Að lesa ljóð og yrkja ljóð“ er byggt upp á einföldum skrifæfingum sem ganga út á að láta þátttakendur líkja eftir góðri fyrirmynd og vinna síðan áfram með eigin texta. Þátttakendur fá að lesa upp það sem þeir skrifa eða fá aðra til þess. Einnig verður stefnt að upplestri eða ljóðasýningu í lokin. Þátttakendur eiga að hafa með sér penna/blýant og blöð til að skrifa á eða tölvu. Kennari er Anton Helgi Jónsson. Einnig námskeiðið; “Að hekla körfu” stutt námskeið þar sem þátttakendur læra að hekla stóra körfu í tveim litum að eigin vali, með heklunál nr. 5,5. Farið er yfir heklutáknin og uppskriftarlæsi og er allt garn innifalið í verðinu. Karfan er síðan tilvalin undir garn og annað handavinnudót eða bara hvað sem er. Kennari er Kristjana Björk.

Í haust buðum við upp á vatnsleikfimi í sundlaug Heilsustofnunar og var kennarinn Rakel. Þá komust ekki allir að, við gátum haft tvo hópa (40 manns) en hefðum viljað hafa einn hóp í viðbót. Nú höfum við fengið vilyrði fyrir þriðja hópnum ef þátttaka verður það mikil. Áfram verður boðið upp á Yoga og Yoga nidra í Kapellu Heilsustofnunar og Dansleikfimi í Skyrgerðinni. Síðast en ekki síst ber að geta um allt það frábæra starf sem fer fram í Þorlákssetri, sem allir geta tekið þátt í. Ljósmyndahópurinn sem starfaði líka í fyrra er það stór að ekki er hægt að bæta við þar en þá er alveg upplagt að mynda nýjan hóp, finna nýjan tíma og þeir reyndari hafa lofað að leiðbeina. Kórinn okkar Hverafuglar er á fljúgandi ferð og er meira að segja að fara í vorferð til Gdansk.

Við skráningu á námskeið þarf að skrá fullt nafn, kennitölu, hvaða námskeið, hvaða tímabil, fyrir eða eftir páska eða allar 20 vikurnar. Best og tryggast er að skrá sig með tölvupósti á netfangið torlaksetur@gmail.com. Einnig er hægt að skrá sig í síma 4835216 kl. 13-16; föstud. 13. 1., mánud. 16.1., þriðjud. 17.1. og miðvikud. 18.1.

Nú hefur verið ákveðið að niðurgreiðsla félagsins verði 25% og er búið að reikna þann afslátt inn í verðskána hér að neðan. Eins og áður koma þátttökugjöld fyrir námskeið í heimabankann skömmu eftir skráningu og er gott að ganga frá greiðslum sem fyrst eftir það.

Verðskrá fyrir námskeið á vorönn 2023
– Vatnsleikfimi – fyrir páska kr. 7.100
– Vatnsleikfimi – eftir páska kr. 5.400 (7 skipti vegna 3 frídaga á tímabilinu)
– Yoga kr. 7.700
– Yoga Nidra slökun kr. 7.700
– Dansleikfimi kr. 4.500
– Vatnslitanámskeið kr. 8.600
– Körfuhekl kr. 4.200
– Ritlist ljóða kr. 5.200

Við kynnum síðar margs konar viðburði s.s. leikhúsferðir, ferðalög, fræðsluerindi, skemmtanir og fleira sem er í undirbúningi. Þar eru hugmyndir ykkar afar vel þegnar. Ekki hika við að hringja eða senda tölvupóst ef spurningar eða hugmyndir vakna.

Fyrir hönd stjórnar
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, starfandi formaður
Sími; 898 2488, netfang; sigurlinsv@simnet.is

0 replies

Skildu eftir svar

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *