Vorfundur 12. maí kl. 18:00

Kæru félagar í FEB í Hveragerði.

Nú fer að líða að árlegum vorfundi sem haldinn verður næsta föstudag, 12.5. kl. 18 í Þorlákssetri. Fyrst á dagskrá verður Sigurlín Sveinbjarnardóttir, formaður, með ýmsar upplýsingar varðandi starfsemi félagsins á vormisseri og horfur fyrir haustið. Einnig mun hún segja frá verkefni sem nefnt er Bjartur lífsstíll og snýr að aukinni áherslu á hreyfingu fólks 60+.

Þar næst kemur Helgi Pétursson, formaður Landssambandsins og segir okkur frá helstu áherslum sem lagðar eru þar á bæ okkur öllum til góðs.

Þá mun Steinunn Aldís Helgadóttir segja okkur frá vinnu í Öldungaráði Heragerðisbæjar, m.a. í stefnumótunarvinnu um málefni eldri Hvergerðinga. Hægt verður að spyrja um allt sem brennur á  fólki og reynt eftir bestu getu að svara.

Síðan verða góðar veitingar, kaffi, te og vatn í boði félagsins. Engin skráning, bara að mæta sem flest með uppbyggilegar ábendingar og umræður.

Fyrir hönd stjórnar,

Sigurlín Sveinbjarnardóttir, formaður

Vorferðin 28.-29. apríl

Ágætu ferðafélagar mínir, gleðilegt sumar.

Nú er aðeins rúm vika í ferðina okkar góðu til Stykkishólms og um Borgarfjörðinn og allt er klappað og klárt. Veðurspáin er mjög góð, milt veður um 3 gráður, engin úrkoma og sól um kvöldið. 28. apríl leggjum við af stað frá Þorlákssetri kl. 8.30. Við erum 37 í hópnum auk bílstjóra, sem sagt afskaplega þægileg stærð á hóp sem gerir allt miklu léttara, tekur styttri tíma að fara inn og út úr rútunni, fá afgreiðslu o.s.frv. Við ökum sem leið liggur í Borgarnes og þar verður stutt stopp við N1 sjoppuna en síðan haldið áfram beint í Stykkishólm. Þar eigum við pantaðan hádegismat í Narfeyrarstofu, dýrindis fiskrétt og kaffi á eftir. Síðan skoðum við bæinn og nágrennið, stoppum stutt við Helgafell en höldum síðan aftur í Borgarnes og bókum okkur inn á fína hótelið okkar um kl. 17.00. Þá getum við fengið okkur göngutúr, farið í baðhúsið (spa) í kjallara hótelsins eða bara hvílt okkur smá á herbergjum. Kvöldmaturinn verður kl. 19. Hægeldað lambafille með grilluðu rótargrænmeti, ristuðu smælki og sveppasósu.  Eftirrétturinn er súkkulaðikaka með þeyttum rjóma. Næsta morgun er stór morgunverður. 29. apríl leggjum við af stað kl. 10 og byrjum á hringferð um Borgarnes og nágrenni, Borg á Mýrum m.m. Hádegisverðurinn verður í hóteli að Varmalandi, kjúklingaréttur með meðlæti og kaffi á eftir. Þá er ekið stóran hring að Deildartunguhver, Reykholti, Kleppjárnsreykjum, Hvanneyri m.m. áður en haldið er heim til Hveragerðis, áætluð heimkoma kl. 18. Það verða ávextir og vatn á boðstólum í rútunni svo enginn ætti að verða svangur. Og á leiðinni segi ég ykkur alls konar sögur, gamlar og nýjar, lognar og sannar, skemmtilegar eða kannski leiðinlegar.

Ég hlakka til að kynnast ykkur betur

Bestu kveðjur

Sigurlín, fararstjóri s. 898 2488.

Námskeið og skráning FEB eftir páska 2023

Kæru félagar
Nú hrindir hratt, dagur degi og í þessari viku eru síðustu tímarnir okkar á Heilsustofnun fyrir páska í vatnsleikfimi, Yoga Nidra slökun og dansleikfimi í Skyrgerðinni, sem verða einnig síðustu tímarnir þar. Einnig námskeiðin í hekli og vatnslitamálun gengu vel og bestu þakkir fyrir góða mætingu í alla þessa tíma.

Eftir páska

Sundlaugin á Heilsustofnun – Fyrsti tími 17. apríl Vatnsleikfimin með Rakel er líkt og fyrr, á mánudögum: fyrsti tími kl. 16:30 – annar tími kl. 17:15 – þriðji tími kl. 18:00. (nokkur pláss laus) Ath. að það eru frídagar og ekki vatnsleikfimi dagana, 10. apríl, 1. maí og 29. maí.

Yoga Nidra og Yoga í Kapellunni á Heilsustofnun – Fyrsti tími 11. apríl  Á þriðjudögum er Yoga Nidra slökun (kl. 18.00) með Steinunni og Yoga (kl. 18:50) með Helgu Björk. (nokkur pláss laus)

Þorlákssetur – Fyrsti tími 11. apríl (3skipti) “Að lesa ljóð og yrkja ljóð” með Antoni Helga Jónssyni sjá: http://www.anton.is 11. apríl, 13. apríl og 18. apríl. kl. 10:00 – 12:00 (nokkur pláss laus)

NÝTT í Þorlákssetri
Spænska með Droplaugu – Fyrsti tími 12. apríl (2x í viku – 8 skipti) Miðvikudaga og föstudaga kl: 13:00 – 14:30 Á þessu skemmtilega námskeiðinu verður lögð áhersla á eftirfarandi:
– að skilja einföld samtöl og spurningar
– að læra algengar og einfaldar setningar; heilsa, panta mat, borga í veslunum o.fl.
– skilja og ná samhengi á einföldu prentuðu efni; auglýsingar, matseðlum o.fl.
– unnið er með talmál og orðaforða frekar en sagnbeygingar
Ef vel tekst til, þá verður boðið upp á þetta námskeið aftur í haust. Námskeiðsgjald kr. 7.500-

NÝTT í Þorlákssetri – Fyrsti tíminn 12. apríl
Línudans með okkar allra beztu Rakel – Fyrsti tími 12. apríl (1x í viku – 8 skipti) Miðvikudaga kl 17:00 – 17:30 Frábært námskeið fyrir alla sem kunna og/eða langar til að læra grunnsporin í línudansi og æfa skemmtilega dansa. Engin þörf á dansfélaga, heilmikil hreyfing og skemmtileg tónlist. Námskeiðsgjald kr. 7.500,-

Skráningu líkur 4. apríl
Kröfur fyrir þátttökugjöldum verða sendar í bankann.

Skráning: Steinunn Aldís á netfang: leirkrus@gmail.com eða í síma: 661 2179
Vinsamlegast látið vita, ef einhverjar breytingar hafa orðið, frá skráningu í janúar.

Vorferð

Vorferð FEB í Hveragerði í Stykkishólm og Borgarfjörð

28. og 29. apríl 2023

Kæru félagar. Nú er komið að því að kynna vorferð FEB í Hveragerði 2023.

Heildarverð á mann er 25.000 kr. Inni í verðinu er; rútan, gisting ein nótt í tveggja manna herbergjum og morgunverður, tveir hádegisverðir og einn kvöldverður. Einnig vatn og ávextir í rútunni. Félagið niðurgreiðir um 25%.

  • Þann 28. apríl verður farið af stað frá Þorlákssetri kl. 9 og ekið sem leið liggur í Borgarnes. Þar er stutt stopp en síðan ekið áfram í Stykkishólm, en þar verður snæddur góður hádegisverður. Bærinn og nágrenni verður skoðaður og sagt frá ýmsu á leiðinni. Þá er haldið aftur í Borgarnes og þar verður góður tími til að koma sér fyrir á hótelinu, sem ber heitið B59 af því að það stendur við Borgarbraut 59. Það verður tími fyrir gönguferðir um bæinn, hvíld á herbergjum eða í baðhúsi (spa) hótelsins fyrir kvöldverðinn.
  • Þann 29. apríl verður snæddur góður morgunverður en síðan haldið af stað kl. 10. Þá verður ekið um Borgarfjörðinn, til Deildartungu, Húsafells, Hraunfossa, Reykholts ofl. Sagðar verða gamlar og nýjar skemmtisögur og annar fróðleikur. Á leiðinni er snæddur góður hádegisverður og síðan stoppað nokkrum sinnum. Áætluð heimkoma í Hveragerði er kl. 18.

Áætlaður hámarksfjöldi er 50. Heildarverð á mann er kr. 25.000 og biðjum við um greiðslu helmings kr. 12.500 núna fyrir 31. mars til að fastsetja hótelið, en rukkun verður send í heimabanka. Síðari helmingur kæmi síðan í heimabanka skömmu fyrir ferð. Vinsamlega skráið ykkur sem fyrst á netfang sigurlinsv@simnet.is, eða í síma 898 2488.

 Hveragerði 23.3.23

Sigurlín Sveinbjarnardóttir

Afmælishátíð

Afmælishátíð á Hótel Örk 25. mars 2023 kl. 18.00 – 24.00

Kæru félagar í Félagi eldri borgara í Hveragerði. Nú skulum við fjölmenna í fína veislu á Hótel Örk í tilefni af 40 ára afmæli félagsins okkar, en hún verður haldin laugardaginn 25. mars nk. og hefst kl. 18.00. Við hefjum veisluna með góðum fordrykk, síðan verður boðið upp á humarsúpu í forrétt og lambasteik í aðalrétt.
Dagskráin verður fjölbreytt og skemmtileg; ljúf tónlist undir borðhaldi sem verður fjörugri er líður á kvöldið og margs konar dagskráratriði verða á boðstólum, s.s. stutt ávörp, fjallað um sögu félagsins, einnig danssýning, tónlist og kórsöngur. Við endum svo á dansi, eru ekki allir til í það? Verðið er kr. 7.500 á mann sem sent verður í heimabanka.
Hægt er að skrá sig í tölvupósti með nafni og kennitölu á netfangið: sigurlinsv@simnet.is frá 10. – 14. mars nk., en einnig í síma 898 2488 mánudaginn 13. og þriðjudaginn 14. mars. Gott að láta vita hvort pantað er fyrir einn eða tvo. Allir komast að, en svar berst þegar skráningu er lokið.
Nú skulum við fjölmenna og heiðra okkar síunga og hressa félag á þessum tímamótum, því eins og oft er haft á orði þá er félagið félagarnir.
Stjórnin

Bingó

Bingó 3.mars kl.20:00 í Þorlákssetri.
Hverafuglar, kór Félags eldriborgara í Hveragerði heldur bingo í Þorlákssetri, félagsheimili FEBH föstudaginn 3. mars kl. 20:00. Verð á spjaldi kr.1.000,- Spilað verður í liðlega klukkustund með stuttu hléi en síðan verður söngstund með stjórnanda kórsins og e.t.v.fleirum hljóðfæraleikurum. Sungið verður í um hálfa klst. lög sem allir þekkja, söngtextar verða á staðnum. Húsið tekur hámark 100 manns í sæti við bingóspil. Margir og góðir vinningar. Reikna má með að hægt væri að deila út vinning að jafnaði á 1-2ja mínútna fresti.

Með fyrirfram þökkum
Sæunn formaður Hverafugla

Aðalfundur Félags eldri borgara Hveragerði

Aðalfundarboð í Félagi eldri borgara Hveragerði

24. febrúar 2023 kl. 15 í Þorlákssetri

Dagskrá
 Skipan fundarstjóra og fundarritara
 Skýrsla stjórnar um starfsárið 2022
 Ársreikningur 2022
 Félagsgjöld 2023
 Lagabreytingar
 Kosningar
1. Kosning formanns
2. Kosning tveggja stjórnarmanna til tveggja ára
3. Kosning eins varamanns í stjórn til tveggja ára
4. Kosning tveggja skoðunarmanna til eins árs og eins til vara
5. Kosning fulltrúa á mánaðarlega fundi og ársfund Landssambands eldri
borgara.
Tveir stjórnarmenn ganga úr stjórn; Áslaug Guðmundsdóttir, formaður og
Guðjón Árnason, varaformaður. Því þarf að kjósa formann, tvo menn í
aðalstjórn og einn í varastjórn. Tillaga uppstillingarnefndar liggur fyrir á
heimasíðu félagsins, www.hvera.net og í Þorlákssetri.
 Önnur mál: Verkefni framundan.
Að fundi loknum er öllum boðið í kaffiveitingar á Rósakaffi.

Stjórn Félags eldri borgara Hveragerði.

 

Tillögur uppstillinganefndar

 

Loader Loading...
EAD Logo Taking too long?

Reload Reload document
| Open Open in new tab

Sækja [116.83 KB]

Leikhúsferð

Kæru félagar,

Nú er komið að fyrstu leikhúsferð ársins.

Farið verður í Tjarnarbíó að sjá „Ég lifi enn“  laugardaginn 11. febrúar n.k. kl. 14:00.  Verð kr. 5.500.- á hvern félagsmann.  Það er fyrir leikhúsmiðann og rútuferðina.

Farið verður frá Þorlákssetri kl. 12:30

Skráning í tölvupósti  martahauks@gmail.com eða í síma: 8687405.  Skráningu lýkur 6. febrúar.

Koma þarf fram nafn, kennitala og fjöldi miða.

Greiðsla verður send í heimabanka

Stjórnin

Bókmenntahópur

„ Leshópurinn hittist alltaf kl. 10:30 – 12:00 á föstudögum í Þorlákssetri og eru allir félagsmenn velkomnir. Hugmyndin er að fundirnir verði frjálslegir og á hverjum fundi lesi 2-4 aðilar, sem ákveðnir eru á fundinum á undan, sjálfvalið efni. Það má vera kafli úr skáldsögu, smásaga, fræðigrein úr bók eða tímariti, nokkur ljóð eða hvaðeina sem viðkomandi finnst áhugavert. Jafnframt þarf viðkomandi að kynna höfund, kynna bókina eða fjalla aðeins um efnið. Eftir hvern lestur verði boðið upp á umræður. Þetta býður upp á fjölbreytni og ef til vill hvatningu til að kynna sér eitthvað sem annars hefið ekki þótt áhugavert. Einnig verði að hausti valin ein bók sem allir lesi yfir „önnina“ og verði hún tekin til umræðu undir lok „annarinnar“. Sama gert að vori. Auðvitað koma svo aðrar hugmyndir til greina.

Það er líka velkomið að mæta bara til að hlusta – engin skylda að lesa fyrir hópinn.“

Námskeið á vorönn

Til félaga í FEB í Hveragerði þann 19.1.2023

 

Nú hefur skráning í námskeið á vegum félagsins staðið yfir í viku, síðan á hádegi þann 12. janúar sl og átti að ljúka hér með. Þetta hefur gengið vel og er sérstaklega mikil aðsókn í vatnsleikfimitíma á mánudögum. Þar er nú fullbókað í þrjá tíma; kl. 16.30, 17.15 og 18.00. Allir fá svar um í hvaða tíma þeir eru skráðir og rukkun verður send í heimabanka á mánudag fyrir gjaldið fram að páskum. Þá er mikilvægt að greiða strax og mæta vel frá fyrsta degi sem er 23. janúar nk. Einnig er fullbókað í námskeið um Körfuhekl.

Enn er hægt að komast að á öðrum námskeiðum ef fólk hefur samband strax. Hægt er að hringja í Steinunni Aldísi í s. 661 2179 eða Sigurlín s. 898 2488.

Hér með fylgir auglýsing um snjalltækjanámskeið, haldið í Þorlákssetri í febrúar. Þar á að skrá sig hjá Seinunni Ósk hjá Fræðsluneti Suðurlands, sjá hér að neðan.

Nú er gott að bregðast fljótt við.

Bestu kveðjur

Sigurlín Sveinbjarnardóttir   starfandi formaður