Jólakveðja til félagsmanna 2022
Kæru vinir í Félagi eldri borgara í Hveragerði. Nú förum við að huga að því að taka hlé frá félagsstörfum fram yfir áramót og njótum tímans með ættingjum og vinum yfir hátíðarnar.
Það er gaman að rifja upp hvernig jólin voru í uppvexti okkar flestra þegar rafmagn var ekki komið á öll byggð ból og alls ekki jólaskreytingar eins og þær sem við sjáum nú prýða bæinn okkar. Ég var víst orðin 8 ára þegar rafmagnið kom nokkuð stöðugt í sveitina mína. Við vorum með þeim fyrstu til að hengja upp litaðar ljósaperur í eitt tréð í garðinum og vakti það mikla forvitni hjá nágrönnum. Kannski eigið þið svipaðar minningar frá bernskunni?
En hvað verður á döfinni á nýju ári í FEB Hveragerði. Hér nefni ég helstu atriði: Það verður sent út fréttabréf og ný stundatafla um 10. janúar 2023; í tölvupósti, á heimasíðu, í sms og með pósti. Skráning í námskeiðin verður 11., 12. og 13. janúar, bæði í síma og með tölvupósti. Starfsemi í Þorlákssetri sem ekki kostar getur byrjað eftir áramót þegar hópstjórar og félagar óska.
Aðalfundur verður haldinn 23.02.23. Þar verður kosið í nokkur embætti og verður það kynnt með lögboðnum fyrirvara. Áslaug Guðmundsdóttir, kosinn formaður, hefur tilkynnt á stjórnarfundi 9.12. sl. að hún vilji ekki vera áfram.
Við í stjórninni sendum ykkur hlýjar jóla- og nýárskveðjur með kæru þakklæti fyrir það liðna. Við hlökkum til að hitta ykkur eftir áramót.
Sigurlín, starfandi formaður.
Skildu eftir svar
Want to join the discussion?Feel free to contribute!